Frá því snemma í vor hefur Öryggismiðstöðin haldið alls sjö námskeið fyrir starfsfólk Strætó undir yfirskriftinni Ógnandi hegðun, varnir og viðbrögð. Á námskeiðunum hefur starfsfólkinu verið kennt að bregðast við á réttan hátt andspænis einstaklingum eða hópum sem sýna af sér ógnandi hegðun og eru líklegir til að beita ofbeldi.
Öryggismiðstöðin hefur um margra ára skeið boðið fyrirtækjum upp á sambærileg námskeið fyrir starfsfólk sem sinnir afgreiðslu- og þjónustustörfum því rétt viðbrögð í slíkum aðstæðum geta skipt sköpum. Kennarar á öryggisnámskeiðunum búa yfir umfangsmikilli reynslu og hafa fjölbreyttan bakgrunn í löggæslu- og öryggisstörfum.
Jónas Helgason, sérfræðingur mannaðra lausna hjá Öryggismiðstöðinni, hefur haft umsjón með námskeiðunum:
Námskeiðalotan hjá starfsfólki Strætó hófst í apríl með fjórum námskeiðum og henni lauk núna í síðustu viku september með þremur námskeiðum. Ég myndi áætla að alls hafi á bilinu 150–170 starfsmenn, aðallega bílstjórar hjá Strætó, setið námskeiðin. Í sínum daglegu störfum mæta bílstjórar Strætó margs konar áskorunum, m.a. hegðun sem getur talist ógnandi eða óæskileg af hálfu farþega. Tilgangurinn með námskeiðunum er að auka færni þeirra í að takast á við slík tilfelli. Lögð er rík áhersla á að kenna þeim að ná stjórn á aðstæðum, mikilvægi líkamstjáningar og orðræðu, s.s. með virkri hlustun og kurteisi í því skyni að ná fram lausnamiðaðri niðurstöðu samhliða því að gæta að eigin öryggi og öryggi annarra farþega.
Á námskeiðinu er farið vel yfir ýmsa sálfræðilega þætti og þær ástæður sem kunna að liggja að baki hjá þeim sem beita ógnandi eða óæskilegri hegðun, sem og mikilvægi þess að hafa stjórn á eigin viðbrögðum. Jafnframt er rætt um samfélagslega þætti eins og menningarmun ólíkra þjóðfélagshópa en stór hluti starfsmanna Strætó er af erlendu bergi brotinn. Fimm af þessum sjö námskeiðum hafa til dæmis verið haldin á ensku. Enn fremur er rætt um mikilvægi þess að fylgja verkferlum þegar erfið mál koma upp; tilkynna til yfirmanna, veita félagastuðning og eftir atvikum faglega aðstoð til þess að vinna úr áföllum. Það hefur verið alveg einstaklega gaman að þessu samstarfi okkar og bílstjórarnir hafa tekið virkan þátt í þeim umræðum sem eðlilega skapast á hverju námskeiði, segir Jónas.
Lilja Hrönn Guðmundsdóttir, sérfræðingur á mannauðs- og gæðasviði Strætó, segir:
Við hjá Strætó vildum veita starfsfólki okkar í framlínu praktíska fræðslu um hvernig eigi að bregðast við í ógnandi aðstæðum ásamt því að efla öryggisvitund og almenna vitneskju um málaflokkinn. Það er skemmst frá því að segja að Jónas hefur yfirgripsmikla reynslu og þekkingu sem hann miðlar á jákvæðan hátt og af fagmennsku. Námskeiðið er lifandi og á því hafa sprottið áhugaverðar umræður sem þátttakendur hafa haft gagn og gaman af. Við höfum afar góða reynslu af þessari fræðslu og munum halda áfram á þessari vegferð.
Frekari upplýsingar um námskeið Öryggismiðstöðvarinnar má nálgast með því að smella á eftirfarandi hlekk.