Reglulega eru veittar úthlutanir og hægt er að sækja um styrk hér fyrir neðan.
Í ár hlýtur UN Women samfélagsstyrk Öryggismiðstöðvarinnar.
UN Women á Íslandi er landsnefnd UN Women, stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem vinnur að jafnrétti kynjanna og eflingu kvenna á heimsvísu. Landsnefndin stuðlar að vitundarvakningu og fjáröflun fyrir verkefni sem miða að því að uppræta kynbundið ofbeldi og styðja við þolendur.
Eitt af þessum verkefnum er FO-herferðin, sem hefur það að markmiði að safna fjármunum til stuðnings konum og stúlkum í stríðshrjáðum löndum. Árið 2024 beindist herferðin að konum í Súdan, þar sem átök hafa leitt til grófs kynferðisofbeldis gegn konum og stúlkum. Sala á FO-húfunni það ár aflaði yfir 8 milljónir króna til verkefna UN Women í Súdan. Þessi fjárstuðningur gerði UN Women kleift að veita þolendum nauðsynlega aðstoð, þar á meðal sálrænan stuðning og örugg skjól.
Öryggismiðstöðin var bakhjarl FO-herferðarinnar 2024 og stóð undir öllum framleiðslukostnaði FO-húfunnar. Þetta gerði það mögulegt að allur ágóði af sölu húfunnar rynni beint til verkefna UN Women í Súdan. Vegna þessa farsæla samstarfs hefur Öryggismiðstöðin ákveðið að endurnýja stuðning sinn við FO-herferðina árið 2025. Að þessu sinni mun herferðin safna fjármunum til stuðnings konum og stúlkum í Afganistan, sem hafa verið sviptar grundvallarmannréttindum sínum eftir valdatöku talíbana. Með því að halda áfram þessu mikilvæga samstarfi sýnir Öryggismiðstöðin skuldbindingu sína við að styðja við mannréttindi og velferð kvenna á alþjóðavísu.
Nánari upplýsingar um UN Women og FO herferðina má finna hér.
Öryggismiðstöðin hefur sett sér sjálfbærnistefnu og leggur í starfsemi sinni og stefnu áherslu á þrjú af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, heilsu og vellíðan, jafnrétti og ábyrga neyslu og framleiðslu. Við úthlutun styrkja er litið til skyldleika málefnisins við heimsmarkmiðin og sjálfbærnistefnu Öryggismiðstöðvarinnar.