Almennar fréttir
Þreföld aukning í notkun hraðprófa eftir að PCR hætti
Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri AVIÖR, sem er svið innan Öryggismiðstöðvarinnar, segir mikið hafa verið að gera í hraðprófum síðustu daga á skimunarstöðvum fyrirtækisins sem eru á nokkrum stöðum eftir að tekið var fyrir það að fólk færi í PCR og beint í hraðpróf. Eftir að hætt var að nota PCR próf til að greina Covid-smit þann 23. febrúar hefur verið þreföld aukning hjá þeim, úr 500 í 1.500 próf á viku.
„Það hafa fjölmargir nýtt sér hraðpróf síðustu viku til að ganga úr skugga um hvort þeir séu með Covid-19 eða ekki,“ segir Ómar en fólk getur bókað tíma á testcovid.is og valið úr nokkrum staðsetningum.
Ómar segir að prófin séu gjaldfrjáls og ef einstaklingur greinist jákvæður fær hann vottorð þess efnis sem hann getur notað til að afhenda vinnuveitanda. „Við erum einnig að þjónusta ferðalanga sem þurfa vottuð Covid-19 próf vegna ferðalaga milli landa. Enn eru mörg ríki sem krefjast neikvæðrar niðurstöðu úr Covid-19 prófi og því getur verið nauðsynlegt að fara í hraðpróf ef fólk ætlar sér að ferðast til Norður Ameríku sem dæmi.“
Hann segir að í dag séu próf hjá þeim jafngild þeim sem eru tekin hjá opinberum aðilum eins og heilsugæslunni.
„Hraðprófin sem um ræðir eru antigen próf sem skila nákvæmri niðurstöðu á fimmtán mínútum. Prófið er framkvæmt með stroku í nefkok. Það tekur einungis 15 sekúndur að taka sýni og viðkomandi fær almennt niðurstöðu senda á rafrænu formi innan klukkustundar frá sýnatöku,“ segir hann að lokum.
Testcovid.is hefur verið rekið af Öryggismiðstöðinni og Sameind rannsóknarstofu undanfarna níu mánuði.