Almennar fréttir
Tækifæri í fjarheilbrigðisþjónustu
Öryggismiðstöðin og norska heilsutæknifyrirtækið Dignio blésu til ráðstefnu á Hilton á dögunum um tækifæri í fjarheilbrigðisþjónustu með áherslu á hvað Íslendingar geta lært af reynslu Norðmanna.
Afar góð þátttaka var á ráðstefnuna sem einnig var streymt til þeirra sem höfðu ekki tök á að vera á staðnum, að því er kemur fram í tilkynningu.
Á ráðstefnunni var m.a. erindi frá Tonje Holm Hjertaas sem er hjúkrunarfræðingur á Akershus-háskólasjúkrahúsinu í Osló. Hún er í forsvari fyrir teymi á sjúkrahúsinu sem leiðir vegferð í innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu og breytinga á þjónustuferlum.
3.600 fá farþjónustu
Á ráðstefnunni kom fram að sjúkrahúsið veitir nú um 3.600 einstaklingum fjarþjónustu heim, í gegnum kerfi Dignio, og hefur þannig tekist að fækka komum á sjúkrahúsið, innlagnardögum og létta á álagi innan spítalans, segir í tilkynningunni.
Þá hafa rannsóknir í Noregi sýnt fram á að ánægja þeirra sem njóta fjarþjónustunnar er mjög mikil. Í Noregi hafa kerfi til fjarheilbrigðisþjónustu verið í þróun og nýtt í þjónustu allt frá árinu 2012.
Í erindi Sarah Wuu sérfræðings hjá Dignio kom fram að fyrirtækið gerði nýlega samning við háskólasjúkrahúsið í Osló, sem er stærsta sjúkrahús Evrópu. Samkvæmt þeim samningi mun sjúkrahúsið innleiða fjarheilbrigðisþjónustu í verkferla sína og bjóða 5.000 einstaklingum þjónustu heim.
Þá var farið yfir stöðu mála hér á landi en í erindi Margrétar Bjarkar og Önnu Margrétar hjúkrunarfræðinga í heimahjúkrun hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) kom fram að stofnunin hóf notkun á kerfi Dignio til fjarheilbrigðisþjónstu á síðasta ári.
Farið var yfir reynsluna hingað til og þau tækifæri sem blasa við. Eitt af því sem staðið hefur upp úr í verkefni HSU er hversu fljótt starfsfólk fann ávinning af notkun fjarheilbrigðisþjónustu og hversu auðvelt hefur reynst fyrir eldri borgara að tileinka sér tæknina.
Sjá ljósmyndir frá ráðstefnunni hér fyrir neðan.