Fara á efnissvæði
Mínar síður Leita

 Leita
EN
Mínar síður 0 Karfa

Almennar fréttir

Rafrænir lyfjaskammtarar í heimahjúkrun

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) og Öryggismiðstöðin hafa snúið bökum saman um innleiðingu á rafrænum lyfjaskömmturum í þjónustu heimahjúkrunar. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem 25 skjólstæðingar heimahjúkrunar munu byrja með lyfjaskammtarana og þeim verður svo fjölgað eftir því sem þjónustan sannar gildi sitt. Verkefninu er ætlað að stuðla að bættri þjónustu og líðan einstaklinga á sama tíma og heimahjúkrun fær aukið tækifæri og svigrúm til að miða þjónustu að þeim notendum sem þurfa mest á henni að halda á hverjum tíma.

Verkefnið að skandinavískri fyrirmynd og notast verður við lausnir sem hafa margsannað gildi sitt og eru í almennri notkun. Lyfjaskammtararnir koma frá norska heilbrigðistæknifyrirtækinu Dignio sem er leiðandi í Noregi í slíkum lausnum og þjónustar m.a. rúmlega 200 norsk sveitarfélög, sjúkrahús og heilsugæslur með lyfjaskammtara og lausnir til fjarheilbrigðisþjónustu. Þannig hafa lausnir fyrirtækisins m.a. verið notaðar til COVID-19 eftirfylgni þar í landi. Uppruna fyrirtækisins má rekja til þróunar lausna í fjarheilbrigðisþjónustu til dreifðari byggða í Noregi. Rannsóknir á vegum opinberra aðila í Noregi hafa sýnt að notkun rafrænna lyfjaskammtara eykur lífsgæði fólks og bætir þjónustu á sama tíma og þörf fyrir innlit heimahjúkrunar vegna lyfjagjafa minnkar. Samhliða þessu sýna niðurstöður frá Noregi að innleiðing slíkra lausna hefur mjög jákvæð áhrif á heilbrigðiskerfið í stærra samhengi og þannig  hefur m.a. verið sýnt fram á fækkun heimsókna til heimilislækna og færri innlagnir á sjúkrahús.

Verkefnið felur í sér að nýjasta tækni í lyfjaskömmturum verður innleidd á næstu mánuðum í Heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Lyfjaskammtararnir virka með þeim hætti að lyfjarúllur eru settar í þá á afar einfaldan hátt og hver og einn lyfjapoki er skannaður í tækinu fyrir lyfjagjöf. Með því fær lyfjaskammtarinn upplýsingar um tímasetningu lyfjatöku, hvaða lyf eru í hverjum poka og tryggir að réttur einstaklingur fái rétt lyf, á réttum tíma. Þegar kominn er tími á lyfjagjöf gefur lyfjaskammtarinn frá sér bæði raddmerki og hljóðmerki og aðeins þarf að  ýta á einn takka til að fá lyfjapokann afhentan úr tækinu. Ef frávik verða, til dæmis að lyf eru ekki sótt á réttum tíma er lyfjaskammtarinn tengdur við stafræna heilsugátt sem gerir starfsfólki heimahjúkrunar viðvart um frávik. Þannig er hægt að bregðast strax við frávikum og sníða þjónustu að raunverulegum þörfum á hverjum tíma. Það eykur öryggistilfinningu einstaklinga að vita að gætt er að þeirra lyfjagjöf ásamt því að stuðla að betri meðferðarheldni.

Mikil umræða hefur verið undanfarið um hvernig bæta megi lífsgæði eldra fólks og mæta þeim samfélagslegu áskorunum sem felast í veitingu þjónustu til þessa hóps sem stækkar hratt. Ein af þeim leiðum sem bent hefur verið á er aukin hagnýting tæknilausna og lítur HH á þetta verkefni sem mikilvæga vörðu á þeirri vegferð.

Diljá Guðmundardóttir

Sérfræðingur í heilbrigðislausnum / sjúkraþjálfari Velferð og ráðgjöf

Ólafía Ragnarsdóttir

Ráðgjöf og sala / sjúkraliði Velferð og ráðgjöf

Pantaðu tíma í ráðgjöf

Ráðgjafar okkar eru við símann núna.

Eða hringdu í síma

570 2400