Almennar fréttir
Öryggismiðstöðin styrkir UN Women annað árið í röð

Öryggismiðstöðin veitir UN Women á Íslandi samfélagsstyrk árið 2025 og heldur þar með áfram öflugu samstarfi sínu við samtökin. Styrkurinn rennur til FO-herferðar UN Women, sem á síðasta ári safnaði rúmlega 8 milljónum króna til stuðnings konum og stúlkum á flótta í Súdan.
Stuðningur við fatlaðar konur á flótta
Átökin í Súdan hafa leitt til grófs kynferðisofbeldis gegn konum og stúlkum, sem eru 69% þeirra sem eru á flótta. Sala á FO-húfunni árið 2024 tryggði fjárhagslegan stuðning fyrir um 280 fatlaðar konur á flótta í Kassala-héraði, auk fjölskyldna þeirra. Fatlaðar konur standa frammi fyrir margþættri mismunun, takmörkuðu aðgengi að þjónustu og atvinnuleysi. Með stuðningi Öryggismiðstöðvarinnar hefur verið veittur sálrænn stuðningur, læknisaðstoð og jafningjastuðningur, auk þess sem konur hafa fengið aðgengi að friðarviðræðum og fræðslu um forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi.
Áframhaldandi stuðningur við konur í Afganistan
Vegna árangursríks samstarfs mun Öryggismiðstöðin endurnýja stuðning sinn við FO-herferðina árið 2025. Að þessu sinni verður fjáröflunin til stuðnings konum og stúlkum í Afganistan, sem hafa verið sviptar grundvallarmannréttindum sínum eftir valdatöku Talíbana.
Öryggismiðstöðin leggur í starfsemi sinni áherslu á sjálfbærni og styður þrjú heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: heilsu og vellíðan, jafnrétti kynjanna og ábyrga neyslu og framleiðslu. Úthlutanir úr samfélagssjóði fyrirtækisins taka mið af þessum markmiðum.