Almennar fréttir
Öryggismiðstöðin stendur vaktina í Grindavík
Öryggismiðstöðin hefur sinnt mikilvægum verkefnum í Grindavík frá desember 2023, þegar undanfarnir stórir jarðskjálftar og jarðhræringar ollu neyðarástandi í bænum.
Öryggisverðir fyrirtækisins hafa staðið vaktina við lokunarpósta bæjarins, þar sem þeir hafa stýrt aðgangi að svæðinu til að tryggja öryggi íbúa og viðbragðsaðila á hættutímum.
Frá 21. október 2024 verður Grindavík opinn almenningi á ný eftir að lokunarpóstarnir verða teknir niður. Í staðinn mun Öryggismiðstöðin sinna áframhaldandi öryggiseftirliti innan bæjarins, með sérstökum áherslum á að tryggja öryggi ef óvæntar náttúruhamfarir verða aftur. Fyrirtækið mun einnig fylgjast með umferð inn og út úr bænum með rafrænum hætti til að vera viðbúið ef þurfa skyldi að grípa til rýmingar á ný.
Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri Mannaðra lausna hjá Öryggismiðstöðinni, segir verkefnið hafa gengið vel, þrátt fyrir miklar áskoranir. „Samstarf við Grindavíkurnefndina og stjórnvöld hefur verið farsælt og mikilvægt framhald er tryggt með öflugu öryggiseftirliti sem getur tekið breytingum með þróun aðstæðna á svæðinu“ segir Ómar.