Almennar fréttir
Öryggismiðstöðin í samstarf við Landspítalann um fjarvöktun
Þann 6. september sl. skrifuðu Öryggismiðstöðin og Landspítali undir samstarfssamning vegna tilraunaverkefnis um fjarvöktun 30 lungnasjúklinga til næstu 12 mánaða og hófst verkefnið formlega fyrir stuttu. Öryggismiðstöðin notar norskt fjarvöktunarkerfi frá Dignio í þessu verkefni en það er nú þegar notað á íslenskum heilbrigðisstofnunum og hefur skilað mjög góðum árangri. Má þar nefna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrgiðisstofnun Suðurlands og velferðarsvið Reykjavíkurborgar.
Markmið verkefnisins er tvíþætt og snýr annars vegar að spítalanum og hins vegar að sjúklingum. Í fyrsta lagi er tilgangurinn með fjarvöktuninni að geta brugðist fyrr við ef sjúklingum versnar með snemmtækri íhlutun og þannig má koma í veg fyrir frekara bakslag sem getur haft í för með sér mögulega endurkomu á Bráðamóttöku eða innlögn á spítalann. Jafnframt eru vonir bundnar við það að með Dignio fjarvöktunarkerfinu muni heimavitjunum fækka auk þess sem Landspítali mun breyta fyrirkomulagi á göngudeild á þann veg að sjúklingar verða kallaðir inn þegar þeir þurfa á þjónustu að halda í stað fastra innlita áður.
Í öðru lagi er markmiðið með verkefninu að bæta öryggi sjúklinga ásamt því að auka heilsulæsi þeirra þannig að þeir geti tekið meiri ábyrgð á eigin heilsu sem mun skila sér í auknum lífsgæðum. Fjarvöktunarkerfið býður upp á mikla möguleika í framtíðinni og vonir standa til þess að ávinningurinn af þessu samstarfsverkefni við spítalann verði í samræmi við væntingar og markmið. Þannig geta skapast tækifæri á frekara samstarfi við Landspítala með yfirfærslu þjónustunnar á aðrar deildir sem myndi án efa leiða til bættrar þjónustu við fleiri sjúklingahópa.