Almennar fréttir
Öryggismiðstöðin hlýtur Þekkingarverðlaun FVH 2022
Öryggismiðstöðin hlýtur Þekkingarverðlaun FVH 2022.
Í ár voru verðlaunin veitt því fyrirtæki sem að mati dómnefndar þótti hafa sýnt einstaka aðlögunarhæfni á umbrotatímum. FVH veitir verðlaunin en það var Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sem afhenti verðlaunin.
Við hvarf um 120 starfa á flugvellinum í upphafi COVID faraldursins lagðist Öryggismiðstöðin yfir það hvaða möguleika á útvíkkun starfsemi það hefði til að halda öllum starfsmönnum áfram í vinnu. Fyrirtækið tók að sér margvísleg verkefni sem tengdust COVID en meðal stærri verkefna var sýnataka fyrir heilbrigðisyfirvöld auk þess sem fyrirtækið opnaði fjórar sýnatökustöðvar fyrir hraðpróf. Þó að flestum verkefnum tengdum COVID sé lokið hefur myndast ný þekking innan fyrirtækisins tengd heilbrigðislausnum og þjónustu sem veitir fyrirtækinu frekari tækifæri til vaxtar á því sviði, segir í mati dómnefndar.
Fjöldi tilnefninga barst og voru Öryggismiðstöðin auk Lyfju og Friðheima í úrslitum en þau tvö síðar nefndu hlutu viðurkenningu í vali.
Við erum stolt af því að hafa tekið þátt í að halda samfélaginu gangandi á þessum umbrotatímum þar sem hægt var með stuttum fyrirvara að þjálfa og sinna sýnatökum, halda landamærunum opnum og á seinni stigum afgreitt hundruði þúsunda hraðprófa í tengslum við fjölbreytta viðburði víðsvegar í samfélaginu. Stefnan er einfaldlega sú að þekking og lausnir sem COVID árin færðu okkur verði mjög áþreifanlegur og verulegur hluti af starfsemi Öryggismiðstöðvarinnar til styttri og ekki síður lengri framtíðar, segir Ragnar Þór Jónsson forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar.
Það var mat dómnefndar að öll þrjú fyrirtækin hefðu sýnt mikla aðlögunarhæfni á umbrotatímum og hvert með sínu lagi sýnt umhyggju og útsjónarsemi í viðbrögðum sínum.
Í dómnefnd sátu Helga Valfells stofnandi og eigandi Crowberry Capital, Þór Sigfússon stofnandi sjávarklasans, Ólöf Skaftadóttir ristjóri Innherja, Bjarni Herrera yfirmaður sjálfbærnimála hjá KPMG og stjórnarmaður í FVH ásamt Telmu Eir Aðalsteinsdóttur framkvæmdastjóri FVH.