Almennar fréttir
Öryggismiðstöðin semur við Arango
Öryggismiðstöð Íslands hefur gengið til samninga við ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtækið Arango um innleiðingu á CRM lausnum Microsoft. Verkefnið nær utan um innleiðingu á lausnum fyrir sölu, þjónustu, markaðssetningu og vettvangsþjónustu Öryggismiðstöðvarinnar.
Við sjáum mikil tækifæri í að innleiða CRM skýjalausnir Microsoft og Arango. Með tilkomu nýrra lausna munum við ná enn betur utan um viðskiptavini okkar með það að markmiði að veita áframhaldandi framúrskarandi þjónustu. Við náum að sjálfvirknivæða ferla í sölu, þjónustu og markaðssetningu ásamt því að einfalda rekstrarumhverfi okkar í upplýsingatækni. Arango varð fyrir valinu sem samstarfsaðili vegna þekkingar og reynslu af sambærilegum innleiðingarverkefnum á íslenska markaðnum og þeirra virðisaukandi lausna sem þau bjóða upp á sem munu nýtast okkur vel, segir Auður Lilja Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Öryggismiðstöðvarinnar.
Verkefni Öryggismiðstöðvarinnar eru umfangsmikil en lausnirnar munu byggja á Dynamics 365 viðskiptalausnum Microsoft. Lausnir Microsoft eru skýjalausnir og eru því rekstur, afritunartaka og uppfærslur innifaldar í þjónustu Microsoft. Hugbúnaðurinn er mjög sveigjanlegur og hentar vel til samþættingar við aðrar Microsoft lausnir sem fjöldi íslenskra fyrirtækja nýtir í sínum rekstri.
Við hjá Arango erum ákaflega spennt fyrir samstarfinu með Öryggismiðstöðinni og það eru spennandi verkefni fram undan hjá þeim. Auk þess að innleiða lausnir í sölu- þjónustu og markaðssetningu erum við að taka ýmis ferli úr eldri kerfum eins og Navision og koma fyrir í nýjum kerfum til að einfalda uppfærslur og rekstur til framtíðar. Við finnum almennt fyrir miklum áhuga á íslenska markaðnum á okkar lausnum sem stuðla að því að stafrænivæða ferla og ná hámarksárangri í sölu, þjónustu og markaðssetningu. Við bjóðum Öryggismiðstöðina velkomna í ört vaxandi viðskiptavinahóp Arango, segir Guðjón Karl Þórisson, sölustjóri Arango.
Arango sérhæfir sig í innleiðingu og samþættingu hugbúnaðarlausna í skýinu, sem styrkja og bæta stafræna ferla fyrirtækja til hagræðingar fyrir viðskiptavini og starfsmenn.