Fara á efnissvæði
Mínar síður Leita

 Leita
EN
Mínar síður 0 Karfa

Almennar fréttir

Laufey Welcome Center

Laufey þjónustumiðstöð

Nýverið opnaði á Suðurlandi ný og glæsileg þjónustumiðstöð fyrir ferðafólk sem staðsett er við afleggjarann að Landeyjarhöfn. Þetta er sú fyrsta í neti þjónustumiðstöðva sem fyrirhugað er að opna víða um land undir nafninu Laufey Welcome Center. Fyrirtækið Svarið ehf. stendur að verkefninu en það er í eigu yfir 30 áhugasamra aðila um bætta innviði, ekki síst þegar horft er til salernisaðstöðu, upplýsingagjafar til ferðamanna og hleðslustöðva fyrir stækkandi rafbílaflota.

Hönnun húsakynna er innblásin af fornri, íslenskri byggingahefð að utan en færir sér í nyt fullkomnustu tæknilausnir innandyra. Í þjónustumiðstöðinni eru m.a. sjálfsafgreiðsluverslun með drykki, snarl og ferðavörur; fullkomin sjálfhreinsandi salerni, gagnvirk upplýsingaborð um áhugaverða staði og þjónustu í nærumhverfinu og allar upplýsingar varðandi áætlanir Herjólfs. Utandyra eru síðan hraðhleðslustöðvar fyrir átta rafbíla og vöktuð bílastæði. Laufey Welcome Center er jafnframt hugsað sem skjól í atburðum eins og óveðri eða náttúruhamförum.

Öryggismiðstöðin kemur að þessu umfangsmikla verkefni með því að leggja til lausnir varðandi aðgangskerfi, brunaviðvörunarkerfi og myndavélakerfi. Öryggishnappar eru á öllum salernum, beintengdir við stjórnstöð. Stefnt er að því að þjónustumiðstöðvarnar verði í framtíðinni opnar allan sólarhringinn og vaktaðar með öryggismyndavélum.

Öryggismiðstöðin var strax frá upphafi okkar besti kostur því þau gátu uppfyllt allar okkar þarfir og veitt þá allsherjar þjónustu sem við þurfum. Hér er um að ræða nýja og að hluta til ómannaða starfsemi; það verður opið allan sólarhringinn og því er gríðarlega mikilvægt að myndeftirlit og önnur öryggismál séu í traustum höndum. Í öllu ferlinu höfum við aldrei komið að tómum kofanum hjá Öryggismiðstöðinni varðandi lausnir á hvers kyns útfærslum, segir Sveinn Waage, markaðsstjóri hjá Svarinu.