Almennar fréttir
Kallar eftir skýrara regluverki

Forvarnir í öryggismálum eru sérstaklega mikilvægar
„Ísland á stóra sviðinu“ var yfirskrift Iðnþings 2025, sem fór fram fimmtudaginn 6. mars í Silfurbergi í Hörpu.
Á tímum tæknibyltinga og tollastríða var fjallað um áskoranir, tækifæri og samkeppnishæfni íslensks iðnaðar á alþjóðamarkaði. Meðal þeirra sem tóku þátt var Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri Mannaðra lausna hjá Öryggismiðstöðinni, sem hélt erindi á þinginu. Í kjölfarið veitti hann einnig viðtal sem birtist í sérblaði Samtaka iðnaðarins í samstarfi við Árvakur.
Ómar vill sjá stjórnvöld innleiða góðar öryggisforvarnir og skapa skýra öryggismenningu í landinu – sem hann segir ekki til staðar núna. Það vantar aga, ferla og skýrleika sem ætti að koma frá hinu opinbera.
"Á Iðnþingi 2025 fjallaði ég um þróun öryggismála í fyrirtækjarekstri og hvernig mannauður og tæknilausnir leika lykilhlutverk í að auka öryggi, bæði á vinnustöðum og í samfélaginu. Mikilvægi þess að hið opinbera eigi virkt samtal um öryggismál og samstarf við einkageirann," segir Ómar.
Öryggismiðstöðin hefur verið leiðandi í öryggislausnum á Íslandi í áratugi. Við sérhæfum okkur í öryggi fyrirtækja, stofnana og heimila og bjóðum fjölbreyttar lausnir á sviði öryggislausna, velferðarlausna og mannaðra lausna," segir Ómar.
Svið mannaðra lausna er eitt af lykilsviðum Öryggismiðstöðvarinnar. Við tryggjum viðveru og þjónustu öryggisvarða og eftirlit fyrir fjölbreytt fyrirtæki og stofnanir. Viðskiptavinir okkar eru helstu fyrirtæki og stofnanir landsins, til dæmis bankar, flugfélög og heilbrigðisstofnanir víða um land. Við erum með um 400 starfsmenn á þessu sviði sem sérhæfa sig í fjölbreyttri öryggisgæslu. Alls starfa um 650 manns hjá fyrirtækinu í heild," segir hann.
Öryggismál hefjast á skýrri stefnu og fræðslu
Hvernig má bæta öryggismál í fyrirtækjum?
"Við þurfum að átta okkur á að öryggismál hefjast með þekkingu, skýrri stefnu og fræðslu. Mannlegi þátturinn er einnig ómissandi þar sem vel þjálfað fólk í öryggismálum er öflug forvörn. Við þurfum að auka áherslu á faglegar þarfagreiningar þar sem þekkingarfyrirtæki eins og Öryggismiðstöðin getur ráðlagt og miðlað reynslu." Það hefur gengið vel að laða til Öryggismiðstöðvarinnar hæft starfsfólk og ráðningar í sumarstörfin ganga vel að sögn Ómars. "Við erum að auka þjónustuframboð okkar þar sem við höfum lagt mikla áherslu á nýjungar í rekstri. Sem dæmi um þetta má nefna nýja þjónustu dótturfyrirtækis okkar Green Parking sem sérhæfir sig í greiðslulausnum og rekstri bílastæða. Við fögnum lækkandi vöxtum sem hafa gert starfsumhverfi okkar betra og vonumst við eftir því að sú lækkun haldi áfram."
Samstarf á milli hins opinbera og einkageirans
Ómar segir vanta upp á víðtæka öryggismenningu í samfélaginu. Það megi sjá í óskýrum ferlum og skorti á reglugerðum. Margar þjóðir eru að gera þessa hluti betur en Ísland og segir Ómar hægt að leysa það með auknu samstarfi á milli hins opinbera og einkageirans. "Við erum með mikla þekkingu á öryggismálum, lausnum og samvinnu tæknilausna og mannauðs. Við myndum vilja sjá stjórnvöld leggja aukna áherslu á skýrara regluverk og lög um öryggisþjónustu og setja á laggirnar viðurkenndar vottanir fyrir starf öryggisvarða, þar sem þjálfun og menntun er gert hærra undir höfði," segir Ómar og bætir við mikilvægi þess að huga að stöðugleika á vinnumarkaði og að hleypa ekki kjarasamningum í uppnám. Við þurfum að skapa fyrirsjáanleika og gæta þess að ákvarðanir stjórnvalda, til dæmis um hækkun skatta á farþega skemmtiferðaskipa, hleypi ekki komum þeirra í uppnám. Á síðasta ári komu yfir 300.000 ferðamenn til Íslands með skemmtiferðaskipum og yfir helmingur þeirra er að koma hingað til lands flugleiðina. Mannvirkjaiðnaðurinn er okkur einnig hugleikinn og það er mikilvægt að hægt sé að byggja í takt við þarfir markaðarins og forðast óþarfa sveiflur." Ómar segir forvarnir í öryggismálum eins mjög mikilvægar. "Þar sem vel útfærðar fyrirbyggjandi aðgerðir draga verulega úr þörf fyrir viðbrögð og stuðla þannig að skilvirkni og hagkvæmni í rekstri.
Við myndum vilja sjá stjórnvöld leggja aukna áherslu á skýrara regluverk og lög um öryggisþjónustu og setja á laggirnar viðurkenndar vottanir fyrir starf öryggisvarða.