Almennar fréttir
Fjarvöktun skjólstæðinga heilsugæslunnar í gegnum Dignio app
Nýverið var haldinn fræsludagur fyrir hjúkrunardeildarstóra heilsugæslna HSU á vegum Öryggismiðstöðvarinnar þar sem farið var yfir helstu þætti fjarvöktunarkerfisins Dignio.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands var fyrsta stofnunin á Íslandi sem innleiddi Dignio kerfið í fjarheilbrigðisþjónustu í sína heimahjúkrun í samvinnu með Öryggismiðstöðinni. Margrét Björk Ólafsdóttir og Anna Margrét Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingar á heilsugæslunni Selfossi hafa haldið utan um verkefnið á HSU frá upphafi.
Fræðsludagurinn var fyrir hjúkrunarstjóra heilsugæslanna í Laugarási, Rangárþingi, Hveragerði og Þorlákshöfn þær Jóhönnu Valgeirsdóttur, Margréti Ýrr Sigurgeirsdóttur og Berglindi Rós Ragnarsdóttur, ásamt Önnu Margréti Magnúsdóttur og Margréti Björk Ólafsdóttur. Til stendur að auka notkun kerfisins hjá HSU og unnið að því að sjúklingar á þessum heilsugæslum geti bæst í hóp ánægðra notenda kerfisins. Vöktun mun þó fara fram á Selfossi að mestu leyti. Fyrr á þessu ári tók heilsugæslan í Vestmannaeyjum kerfið í notkun með góðum árangri. Alls eru 37 einstaklingar skráðir í fjarvöktun hjá HSU.
Fjarvöktunarkerfið Dignio er app og hefur nú verið í notkun á Selfossi í eitt og hálft ár með mjög góðum árangri. Kerfið fylgist með mælingum sem skjólstæðingar gera sjálfir heima. Sjúklingar tengja sig kerfinu með rafrænum skilríkjum og gera þær mælingar sem þarf að gera og heilbrigðisstarfsfólk skoðar síðan niðurstöðurnar og sér strax ef frávik hafa orðið og geta þá brugðist við. Þetta eykur meðvitund sjúklinga um eigin heilsu og um leið öryggi þeirra um að fylgst sé vel með þeim, einnig fækkar heimsóknum á heilsugæslu eða bráðavakt og að þeir geta dvalið lengur heima.
Þær Anna María Sighvatsdóttir og Diljá Guðmundsdóttir frá Öryggismiðstöðinni sáu um fræðsluna.