Almennar fréttir
Eftirlitsmyndavélar sem þekkja andlit og bílnúmer
Öryggismiðstöðin í samstarfi við tæknifyrirtækið Dahua blés á dögunum til ráðstefnu um innleiðingu gervigreindar (e. AI) í tækni eftirlitsmyndavéla. Dahua er einn stærsti framleiðandi heims í eftirlitsmyndavélakerfum og búnaði tengdum þeim og lausnir þeirra seldar í yfir 180 löndum um allan heim.
„Gervigreind er mikil bylting í eftirlitsmyndavélum og gerir þær mun skilvirkari. Með þessum nýjustu myndavélum er verið að auka enn frekar öryggi borgaranna og gera allt eftirlit bæði einfaldara og nákvæmara,“ segir Ómar Rafn Halldórsson, vörustjóri hjá Öryggismiðstöðinni.
Hann bætir við að með gervigreind sé hægt að láta myndavélakerfið taka upp myndefni við sérvalin atriði í sjónsviði myndavélarinnar, senda boð um ákveðið ástand til stjórnenda kerfisins, safna upplýsingum um það sem fer fram og gerist í sjónsviði myndavélarinnar og búa til lýsigögn (e. metadata) til greiningar og notkunar. „Þannig er hægt að fylgjast með því sem skiptir máli en þarfir eru misjafnar eftir eðli vöktunar. Þetta auðveldar eftirlitsaðilum eins og t.d. lögreglu og stjórnstöðvum öryggisfyrirtækja til muna að leita að ákveðnum atvikum,“ segir Ómar Rafn.
Meta umhverfi sitt með innbyggðri gervigreind
Myndavélarnar hafa innbyggðar greiningalausnir, gervigreind, er gerir þeim kleift til að meta umhverfi sitt og senda aðvaranir eða safna upplýsingum samkvæmt fyrirfram skilgreindum reglum. Að sögn Ómars er um að ræða fjölbreytta greiningu svo sem andlitsgreiningu, liti á fatnaði, grímunotkun, öryggishjálmanotkun og notkun öryggisvestis svo dæmi séu nefnd.
Lýsigögn geti einnig verið tegundir bifreiða og bílnúmer sem hægt að nýta til dæmis til greiðslumöguleika í bílastæðakerfum eða aðgengi að lokuðum aðgangsstýrðum svæðum.
„Þetta eru verkfæri sem gefa einnig tölulegar upplýsingar. Það er að nota þetta til að telja inn og út úr verslunum og jafnvel til þess að greina umferð um verslunarsvæði, hvar sé heppilegast að stilla fram vörum sem leggja eigi áherslu á að selja með því að sýna á korti umferðarmestu svæði verslunarinnar. Þetta er mjög gagnvirkt kerfi,“ segir Ómar Rafn.
„Gervigreindin heldur áfram að læra betur og betur sem þýðir að það er hægt að fá sífellt meiri og nákvæmari upplýsingar út úr greiningunni og við sjáum eftirlitsmyndavélakerfi og möguleika þeirra í sífellt fleiri hlutverkum hjá viðskiptavinum okkar og aukin tækni gerir þeim kleift að greina það sem skiptir málir við margvíslegar aðstæður án þess að sitja uppi með myndefni sem ekki er þörf á,“ segir Ómar ennfremur.