Almennar fréttir
Áhersla lögð á óhefðbundin tjáskipti fatlaðra hjá Hæfingarstöðinni á Bæjarhrauni
Hæfingarstöðin á Bæjarhrauni hefur verið með í að þróa samskiptamáta og hefur verið í erlendu samstarfi með þátttöku fatlaðra.
Hæfingarstöð fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir hefur verið starfrækt frá árinu 1991 að Bæjarhrauni 2.
Fyrstu 20 árin var hún starfrækt af ríkinu en við flutning málaflokks fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hefur hún verið starfrækt af Hafnarfjarðarbæ.
Áhersla á tjáskipti
Halla Harpa Stefánsdóttir er forstöðumaður Hæfingarstöðvarinnar og segir hún að frá upphafi hafi ætíð verið lögð áhersla á þjálfun í notkun óhefðbundinna tjáskipta samhliða notkun á sértækum tjáskiptatölvum. Segir hún að einnig sé lögð áhersla á skynörvandi umhverfi.
Erlent samstarf
„Erlent samstarf er talsvert m.a. alþjóðleg samvinna varðandi þróun Blisstungumálsins og samstarf í gegnum Erasmus+ sem er á vegum Evrópusambandsins og Nordplus samtakanna,“ segir Halla. „Þátttaka þjónustunotenda er mikil í þessu erlenda samstarfi og hafa þau notið þess mikið að ferðast erlendis ásamt starfsfólki“.
Kynning og kaffisamsæti
Þann 5. sept. s.l. var Hæfingarstöðin með kaffisamsæti í Hafnarborg þar sem um 50 manns mættu. Þar var starfsemi Hæfingarstöðvarinnar og þátttaka í Erasmus+ verkefni sem Belgía og Litháen tóku einnig þátt í.
Heiti verkefnisins var „Empowering life“ eða „Valdeflandi líf.“ Að sögn Höllu var tilgangurinn með verkefninu að deila árangursríkri vinnu við stuðning við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og þá sem takast á við geðrænar áskoranir.
Tölvur og hugbúnaður mikilvægur við samskipti
„Við sýndum tæknibúnaðinn sem notaður er af þjónustunotendum og gátu gestir prófað að nota Tobii Dynavox tölvur með Communicator5 og TD Snap hugbúnað. Einnig fengu þeir tækifæri til að kynnast augnstýringu á tölvum, mismunandi snertiskjám og útprentuðum tjáskiptatöflum.
Við kynntum aðal samstarfsaðila okkar þ.e. Öryggismiðstöðina og Tobii Dynavox auk þess sem við deildum vefsíðum varðandi þær aðferðir og nálganir sem við notum í daglegu starfi okkar,” segir Halla um þessa vel heppnuðu athöfn sem varpaði ljósi á þá öflugu starfsemi sem fer fram á Hæfingarstöðinni.
Gestir sáu einnig kynningarmyndband frá þessu Erasmus+ verkefni sem staðið hefur yfir í tvö ár en kaffisamsætið í Hafnarborg setti endalok á verkefnið.